Notendur og notendahópar

Article Index

Notendur

Eingöngu er hægt að vinna með notendur í Joomla í gegn um stjórneiningu, enda reiknað með því að þeir notendur sem vinni með aðra notendur hafi stjórnendaréttindi á vefinn.

Í stjórneiningunni er smellt á annað hvort 'User Manager' í hliðarvalmynd vinstra megin eða smellt á 'Users' og 'User Manager' i efri valmynd.

User Manager í hliðarvalmynd

User Manager í efri valmynd


Að nýskrá notanda

 Þegar komið er inn í 'User Manager' umhverfið blasir efri valmynd einingarinnar við. Hér er smellt á 'New' hnappinn til að komast í skráningareyðublað fyrir notendaskrángingu.

'User Manager' valmyndin

Í eyðublaðinu þarf einungis að fylla út eftirfarandi reiti:

  • Nafn (fullt nafn) notandans
  • Notandanafn (til innskráningar)
  • Lykilorð
  • Lykilorð aftur (til staðfestingar)
  • Netfang (athugið að ekki er hægt að skrá sama netfang á fleiri en einn notanda)

 Næst er smellt á 'Assigned User Groups' tengilinn sem er staðsettur efst í eyðublaðinu og þar ánöfnum við notandanum aðgangsréttindum.

Aðgangsréttindi eru valin undir 'Assigned User Groups' flipanum

Athugið að hægt er að skrá notandann í fleiri en einn notendahóp. Þessi virkni kemur sér afskaplega vel þegar verið er að vinna með sérútbúna notendahópa og stakir notendur þurfa að vera með réttindi á efni sem tilheyrir fleiri en einum notendahóp.

Þessu næst er smellt á 'Save & Close' hnappinn í valmyndinni ofan við eyðublaðið og þá er notandinn skráður.


Að breyta notandaaðgangi hjá skráðum notanda

 Þegar við erum stödd í notendalistanum getum við smellt á notendanafn notanda til að opna viðkomandi notendaaðgang í ritham.

Notendalistinn - Hér er smellt á nafn notanda til að breyta aðgangi viðkomandi

 Ef meiningin er að færa nokkra notendur í einu á milli notendahópa, eða bæta þeim inn í notendahóp er hægt að haka framan við viðkomandi notendanöfn og smella á 'Batch' í valstikunni ofan við notendalistann. Þá opnast sprettigluggi sem gefur kost á að færa notendur, eða bæta þeim við notendahópa.

Hægt er að færa marga notendur í einu á milli notendahópa

 

 


Notendahópar

Joomla kerfið er sett upp með stranga flokkun þegar kemur að notendahópum.

Fjórir notendahópar hafa eingöngu aðgang að framenda kerfisins, en það eru:

Public (Almennur notandi): Almennir notendur sem ekki eru krafðir um innskráningu. Efni vefjarins er sjálfgefið stílað inn á þennan notendahóp.

- Registered (Innskráður notandi): Almennir notendur sem krafðir eru um innskráningu. Þessi hópur hefur aðgang að efni sem ekki er ætlað almennum notendum án innskráningar.

- - Author (Höfundur): Efnishöfundar hafa leyfi til að búa til nýtt efni fyrir vefinn. Þessi notandi hefur ekki leyfi til að birta óbirt efni né taka efni úr birtingu. Eins hefur þessi notandi ekki leyfi til að vinna með greinar utan við þær sem tilheyra honum sjálfum.

- - - Editor (Ritstjóri): Auk þess að mega búa til nýtt efni fyrir vefinn hafa ritstjórar leyfi til að vinna með efni eftir aðra notendur og vinna með óbirt efni, sem ekki er sýnilegt notendum í fyrrgreindum notendahópum.

- - - - Publisher (Útgefandi): Eðli málsins samkvæmt er hér um að ræða notendur sem hafa leyfi til að taka efni úr birtingu og birta óbirt efni. Hægt er að stilla vefinn þannig að allar nýjar greinar fara í 'bið' þar til útgefandi hefur samþykkt birtingu þeirra.

Þrír notendahópar hafa aðgang að stjórneiningu kerfisins, en það eru:

- Manager (Útgáfustjóri): Auk þeirra réttinda sem útgefendur hafa hefur stjórnandinn kost á að innskrá sig í stjórneiningu vefjarins og vinna þar með efnisflokka og valmyndir. Útgáfustjórinn er því í raun 'vítamínbættur útgefandi'.

- - Administrator (Vefstjóri): Auk þeirra réttinda sem útgáfustjórar hafa hefur vefstjórinn réttindi til að vinna með viðbætur og notendur vefjarins, að undanskildum yfirstjórnendum. Vefstjórinn hefur í raun aðgang að öllu nema útlitsskrám og vefþjónatengdum stillingum á bak við vefinn.

- - - Super User (Yfirstjórnandi): Já nú erum við að spjalla. Hér er um að ræða notendur sem hafa aðgang að öllu sem kerfið hefur upp á að bjóða. Yfirstjórnandinn hefur óheftan aðgang að stillingum á bak við kerfið og þjónatengingum, auk þess að geta búið til nýja yfirstjórnendur og eytt hvaða notandaaðgangi sem er, nema sínum eigin.

Notendahópar


Sérsniðnir notendahópar

Joomla kerfið býður upp á að búa til sérsniðna notendahópa og gefa þeim hópum sértækan aðgang að greinaflokkum. Sem dæmi er hægt að búa til nýjan notendahóp undir 'Registered' hópnum, sem erfir þá öll réttindi frá þeim notendahóp (sem eru í raun engin nema að geta skoðað efni sem ætlað er innskráðum notendum). Síðan er hægt að búa til efnisflokk sem er í eigu þessa nýja notendahóps, þ.e. hægt er að gefa hópnum full skrifréttindi inn í einn (eða fleiri) efnisflokk. Þetta getur verið mjög þægilegt, til dæmis ef ætlunin er að leyfa nemendum skóla að sjá um fréttabirtingu á takmörkuðu svæði skólavefja.

Nýr notendahópur erfir réttindi frá þeim hóp sem hann er stofnaður undir. Sem dæmi má nefna að ef við viljum stofna notendahóp sem hefur skrifréttindi og rétt á að birta og taka efni úr birtingu þurfum við að búa notendahópinn til sem undirhóp undir 'Publisher' (Útgefendur) hópnum. Ef meiningin er að stofna notendahóp sem hefur aðeins aðgang að einum eða takmörkuðum fjölda efnisflokka er lang best að búa notendahópinn til sem undirhóp undir 'Registered' eða 'Innskráðir notendur' hópnum, til að koma í veg fyrir að nýji notendahópurinn erfi réttindi á alla efnisflokka og nota síðan stillingar þeirra efnisflokka sem við á til að ánafna nýja notendahópnum sértækum réttindum á viðkomandi efni. Eini notendahópurinn sem ekki er hægt að stofna undirhóp undir er 'Super Users' hópurinn, sem þegar hefur eins mikil réttindi og kerfið býður upp á.

Að búa til nýjan notendahóp

Smellt er á 'User Groups' tengilinn í valmyndinni vinstra megin við notendalistann.

Smellt er á 'User Groups' tengilinn

 

Þá opnast þetta einfalda eyðublað sem gefur okkur kost á að gefa nýja notendahópnum nafn og yfirhóp. Hafið í huga að nýji notendahópurinn erfir aðgangsréttindi yfirhópsins.

 Þegar smellt er á græna 'Save' takkann ofan við eyðublaðið vistast nýji notendahópurinn og við sjáum hópalistann uppfærðann.

Hópalistinn eftir breytingar