Flokkar og undirflokkar

Article Index

Efnisflokkakerfi Joomla hefur verið endurskrifað frá grunni og nú er ekkert sem hamlar notendum varðandi efnisflokkun á Joomla 3 vefjum. Þessi nýja nálgun á efnisflokka og möguleikinn á að stýra eignarhaldi efnisflokka í hendurnar á notendahópum, án þess að utanumhald flokka hafi verið flækt, gerir það að verkum að Joomla er afskaplega heppilegt kerfi til að búa til vefi af öllum stærðum. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að Joomla er eitt sveigjanlegasta kerfið á markaðnum í dag og afskaplega heppilegt fyrir vefi sem gætu þanist hratt út.


Að búa til greinaflokk

Vinna með greinaflokka er einskorðuð við aðgang að stjórneiningu Joomla kerfisins.Til að geta unnið með greinaflokka verður notandi því að vera útgáfustjóri, vefstjóri eða yfirstjórnandi (Manager, Administrator eða Super User).

Þegar notandi er innskráður í stjórneiningu kerfisins er hægt að nálgast stjórneiningu efnisflokka með tvennu móti. Á stjórnborðinu sjálfu er hægt að smella á 'Catagory Manager' táknið, en einnig er alltaf hægt að fara í efri valmyndina og smella á 'Catagory Manager' tengilinn undir 'Content' fellilistanum.

Tengill á efnisflokka í hliðarvalmynd
Tengill á efnisflokka í efri valmynd

 Þegar komið er inn í 'Catagory Manager' viðmótið hefur notandinn aðgang að þeim efnisflokkum sem til staðar eru auk þess að geta unnið með efnisflokka, en eftirfarandi möguleikar eru í boði í efri valmynd:

 • New: Gefur aðgang að ritilsviðmóti til að búa til nýjan efnisflokk.
 • Edit: Gefur aðgang að ritilsviðmóti til að breyta völdum efnisflokki. ATH að merkja þarf við efnisflokk í listanum áður en smellt er á þennan hnapp, en sama viðmót opnast líka ef smellt er á titil viðkomandi efnisflokks án þess að merkja við hann.
 • Publish: Birtir valda efnisflokka. ATH að merkja þarf við þá efnisflokka sem ætlunin er að setja í birtingu. Hægt er að merkja við ótakmarkað marga flokka og birta þá alla samtímis.
 • Unpublish: Tekur valda efnisflokka úr birtingu. ATH að merkja þarf við þá efnisflokka sem ætlunin er að taka úr birtingu. Hægt er að merkja við ótakmarkað marga flokka og taka þá alla úr birtingu samtímis.
 • Archive: Færir valda efnisflokka í 'eldra efni' eða 'archive'. Efnið er þá tekið úr birtingu og merkt sem eldra efni. Efninu er ekki eytt og hægt er að búa til valmyndartengil sem tengist beint inn á eldra efni í gegn um 'Archive' tengil. Efni sem er merkt sem eldra efni birtist ekki í greinasöfnum öðrum en þeim sem tilheyra eldra efni.
 • Check In: Fjarlægir ritlása af ritlæstu efni. Stundum kemur fyrir að notandi sem ætlar að vinna með efnisflokk fær 'timeout' á innskráningu (til dæmis vegna áríðandi símtals) og þá læsist það efni sem viðkomandi var að vinna með. Ef viðkomandi innskráir sig ekki aftur og fer inn í læsta efnið eða greinaflokkinn og fer út úr því með því að vista eða hætta við, getur stjórnandi farið inn síðar og tekið skriflása af með því að merkja við þá efnisflokka sem læstir eru og smella á þennan hnapp.
 • Trash: Hendir völdum flokkum í ruslið. ATH að ekki er hægt að henda efnisflokkum sem innihalda efni sem er merkt í birtingu. Einnig er gott að hafa í huga að hægt er að nálgast flokka í ruslafötunni í nokkurn tíma eftir að þeim er hennt.
 • Batch: Gefur kost á að vinna með marga efnisflokka í einu. Hér er til dæmis hægt að færa flokka undir einn flokk, vinna með aðgangsstýringar og tungumál, auk þess sem hægt er að gefa nokkrum flokkum í einu sameiginleg 'tög' til að flokka þá saman í leitarkerfi vefjarins.
 • Rebuild: Stöku sinnum kemur upp sú staða að gagnagrunnar frjósa eða að upp koma villur í gagnagrunni sem erfitt getur verið að lagfæra. Rebuild hnappurinn gefur kost á að senda skilgreiningar á efnisflokkum á gagnagrunninn til að lagfæra slíkar villur.

Stjórneining efnisflokka


Undirflokkar

Í Joomla er í raun engin munur á yfir- eða undirflokkum. Þegar ætlunin er að vista flokk sem undirflokk undir öðrum efnisflokki er valin yfirflokkur úr 'Parent' fellilistanum hægra megin við ritilinn.

new catagory parent item

Joomla gefur kost á að búa til eins mörg þrep eða 'level' af flokkum og þörf er á í efnistrénu, þannig getur flokkurinn 'Fréttir' innihaldið flokkinn '2015' sem síðan getur innihaldið flokkinn 'Janúar' Sem síðan getur innihaldið flokkinn '1. janúar' og þar fram eftir götunum.


Tög

Joomla notar svokölluð 'tög' (Tags) til að hópa saman greinum eða greinaflokkum sem eiga eitthvað sameiginlegt. Þannig er hægt að hópa saman efni, sem tilheyrir ólíkum greinaflokkum eftir tögum og birta lista yfir efni sem deilir tögum með því sem verið er að skoða á hverjum tíma til að auðvelda notandanum að finna greinar eða greinaflokka sem lúta að sama efni.

Hægra megin við greinaritilinn í stjórneiningu vefjarins er hægt að setja inn tög í 'Tags' reitinn. Sami reitur er aðgengilegur þegar unnið er með greinar í framenda vefjarins, undir 'Utgáfumöguleikar' flipanum en þessi stilling er aðgengileg fyrir allt efni, hvort sem um er að ræða greinar eða greinaflokka.

Hægt er að hópa efni saman með tögum


Aðgangsstýringar

 Hægt er að aðgangsstýra greinum og greinaflokkum eftir notendahópum. Í grunnin eru 4 stillingar á aðgangi að efni, en þær eru eftirfarandi:

 • Public: Efnið er ólæst og allir sem vafra um vefinn hafa óheftan aðgang að því.
 • Registered: Efnið krefst innskráningar en gestir þurfa ekki að hafa neinar skrifheimildir á vefinn til að geta skoðað efnið.
 • Special: Efnið krefst innskráningar og gestir þurfa að hafa skrifheimildir á vefinn til að geta skoðað það.
 • Super Users: Efnið er eingöngu ætlað stjórnendum.

Hægra megin við greinaritilinn í stjórneiningu vefjarins er hægt að velja aðgangsheimild að efninu úr 'Access' fellilistanum. Sami reitur er aðgengilegur þegar unnið er með greinar í framenda vefjarins, undir 'Utgáfumöguleikar' flipanum en þessi stilling er aðgengileg fyrir allt efni, hvort sem um er að ræða greinar eða greinaflokka. Ef framendi vefjarins er á íslensku heitir þessi fellilisti 'Aðgangsstýring'.

Fellilisti fyrir aðgangsstýringu efnis


Tungumál

Þegar unnið er með fjöltyngda vefi býður Joomla upp á afskaplega öfluga höndlun beint úr kassanum. Hægt er að merkja allt efni þeim tungumálum sem eru innsett á vefinn og stýra þannig hvaða efni er birt þegar vefurinn er skoðaður á því tungumáli sem valið er.

Til að hægt sé að flokka efni eða einingar eftir tungumálum þurfa eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt:

 • Fleiri en eitt tungumál er innsett á vefinn
 • Öll tungumál sem ætlunin er að nota eru skilgreind í stjórneiningu tungumála undir 'Extensions > Language Manager > Content'
 • System - Language Filter plugin er virkjað
 • System - Language Code plugin er virkjað

Hægra megin við greinaritilinn í stjórneiningu vefjarins er hægt að velja aðgangsheimild að efninu úr 'Language' fellilistanum. Sami reitur er aðgengilegur þegar unnið er með greinar í framenda vefjarins, undir 'Utgáfumöguleikar' flipanum en þessi stilling er aðgengileg fyrir allt efni, hvort sem um er að ræða greinar eða greinaflokka. Ef framendi vefjarins er á íslensku heitir þessi fellilisti 'Tungumál'.

Fellilisti til að velja tungumál